Wednesday, December 22, 2010

Jólakveðjur

Við í stjórn Gönguklúbbs viljum óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsælts komandi árs og þökkum móttökurnar og þáttökuna á fyrstu mánuðum klúbbsins okkar.
  Við munum skipuleggja nokkrar göngur á nýju gönguári, bæði verður farið á fjöll og eins verður gengið á láglendi. Nokkrar hugmyndir hafa komið upp t.d gönguhelgi í samvinnu  við hlaupaklúbbinn í Þórsmörk í byrjun júní, og svo er það ákveðið að ganga með Golden Wings 13 ágúst n.k um Kerlingafjöll. Hvet ég alla til að fara inn á slóð þeirra á facebook og skoða hún úr: http://www.facebook.com/pages/Golden-Wings-Gongum-til-gods/132416306799204?ref=ts
   Miðvikudagsgöngurnar verða með öðru sniði þeir sem mæta ákveða sjálfir hvert skal haldið hverju sinni. Eins langar okkur að hvetja fólk til að nota sér það að senda til annarra gönguklúbbsmeðlima í Lotus Notes hvatningju að koma með sér undir kjörorðinu " Ertu til á fjall" en það er gert svona #Gönguklúbbur Icelandair group.
Gangi ykkur allt í haginn og njótið samverunar við ykkar fólk um hátíðarnar.

Jólakveðjur
f.h stjórnar
Jóhann Úlfarsson

Thursday, December 16, 2010

Jólagangan gekk frábærlega !!!

Það er óhætt að segja það að jólaganga GÖIG hafi gengið frábærlega vel, mæting með besta móti  26. manns. Hilmar Þór Björnsson arkitekt fór á kostum, sagði okkur sögur úr holtinu,goðagötum,listigörðum, gólfum á líkhúsum og læknaaðgerðum og krufningum já og Þórsgötunni þar sem hann er alin upp og millinafnið hjá honum er í höfðuð á götunni. Sagði okkur að ekki væri gott að grafa holur við hliðna á húsinu sínu þegar maður væri bara 6 ára og einhver fullorðin sem ætti leið framhjá segði manni að húsið gæti dottið ofan í holuna. 
Veðrið var kalt en skaðaði engan og maður gleymdi sér alveg við sögurnar hans Hilmars.
Það er von mín og trú að þessi ganga verði endurtekin að ári, jú við enduðum svo á glæsilegum veitingarstað sem heitir Uppsalir og þar fengu menn sér súkkulaði með rjóma, kaffi, jólabjór, venjulegan bjór og hnallþórur á öllum stærðum og gerðum.
Mig langar að þakka ykkur sem komuð, Hilmari og Svönu fyrir frábært kvöld. Að lokum langar mig að óska ykkur öllum gönguklúbbsfélagar gleðilegra jóla og góðar óskir með nýtt gönguár. Kúbburinn fer vel af stað og það von mín og vissa að hann á eftir að dafna vel á komandi ári og árum.

fh. stjórnar
Jóhann Úlfarsson formaður

Monday, December 13, 2010

Jólagangan miðvikudaginn 15.desember n.k kl 19.00.

Jólagangan verður 15.desember. Við hittumst klukkan 19.00 á horni Vesturgötu og Aðalstrætis, framan við Kaffi Reykjavík og göngum um miðbæinn undir leiðsögn Hilmars Þ Björnssonar arkitekts. Hann er mikil áhugamaður um byggð í miðbænum okkar og kann að segja frá uppbyggingunni o.m.fl.
Að lokinni göngu (ca kl. 20:30) er stefnt að því að setjast niður, búið er að panta borð á barnum Uppsölum, sem er í Hotel Reykjavik Centrum, á horni Aðalstrætis og Túngötu (við hliðina á Fjalarkettinum). Hægt verður að panta sér eitthvað góðgæti og fagna komu jólanna við arineld og kertaljós.
Gaman verður að sjá sem flesta með, það er enginn skylda að fara og fá sér veitingar á eftir heldur er það bara til að auka jólastemminguna. Aðallega væri gaman að sjá ykkur ágætu gönguklúbbsfélagar.
Hlökkum mikið til þessarar göngu og það má bjóða mökum og vinafólki með,

fh stjórnar,
Jóhann Úlfarsson


Tuesday, December 7, 2010

Fjallamaðurinn með heimsmet-Ljósafoss-miðvikudags og jólagangan okkar.

Mér finnst ekkert af þessu erfitt, ég geng bara eitt skref í einu og ég eyði ekki nema bara broti af orku í að hugsa að ég eigi eftir að ganga upp á tindinn. Ég nýti hugarorkuna í stað og stund,“ segir Þorsteinn Jakobsson fjallagarpur sem hefur unnið það ótrúlega afrek að hafa klifið 360 fjallstoppa á árinu til styrktar Ljósinu.

Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein eða blóðsjúkdóma og aðstandendur þeirra. Hann ætlar þó ekki að láta þar staðar numið því hann hefur heitið að klífa alls 365 toppa á árinu og síðasta fjallið mun hann ganga næstkomandi laugardag, þann 11. desember. Þá ætlar Þorsteinn að ganga upp á Esjuna í samfloti með björgunarsveitinni Kyndlinum og er markmiðið að mynda eins konar ljósafoss frá toppi Esjunnar og niður að rótum. (frá (hanna@dv.is)

innskot / Jóhann Úlfarsson
Ég hvet alla félaga í Gönguklúbbi Icelandair group til að vera með Steina Jakobs í þessari einstæðu göngu, það þarf fleira göngufólk en félaga í Kyndli til að mynda Ljósfossinn niður alla Esjuna. Komið með höfuðljós eða logandi kyndla og verið með. Við þekkjum öll einhvern sem hefur háð eða er í baráttuni við krabbamein og við vitum það er alltaf góð von um bata. Verum með og sýnum virðingu okkar fyrir góðu málefni eins og það sem Ljósið stendur fyrir.

Fréttaskot:
Munið gönguna á morgun miðvikudaginn 8.des, þar mun Sigríður Brynjúlfsdóttir verða göngustjóri okkar og við getum æft okkur fyrir Ljósfossgönguna um helgina 11.des.
Síðan styttist í jólagönguna okkar sem verður farinn miðvikudaginn 15.des klukkan 19.00 undir styrkri stjórn Hilmars Bjönssonar arkitekts, við förum með honum um bæinn og fræðumst um byggingar o.fl í miðbænum okkar. Endum síðan gönguna í Uppsölum - Austurstræti og fáum okkur eitthvað góðgæti, þar er pantað fyrir okkur þannig að væið ættum að fá borð. --  Verður nánar kynnt síðar, en takið dagsetninguna frá.

kveðja,
Jóhann Úlfarsson

Thursday, November 25, 2010

Miðvikudagsgangan 24. nóvember

Við vorum átta sem mættum í  gönguna í gær. Göngustjórarnir Erna og Vilborg ákváðu að farið skyldi niður í bæ. Við gengum nýja Nauthólsveginn í áttina að Umferðamiðstöðinni inn á Sóleyjargötu og svo inn í tjarnargarðinn meðfram tjörninni/  Bjarkargötu og Tjarnargötu. Síðan gengum við fram hjá Ráðhúsinu en þar var greinilega eitthvað spennandi að gerast.  Menn og konur voru ekki alveg viss um hvort það var sjálfur borgarstjórinn eða þeir Spaugstofumenn sem þar voru í aðalhlutverkum. Svo héldum við áfram eftir Vonarstrætinu og fórum svo austur Laufásveg og aftur Nauthólsveginn til baka. Þetta var stórfín ganga í góðu veðri. Við vorum u.þ.b.  eina klukkustund í göngunni og vegalengdin rétt um 5 KM. 

Kveðja,

Sveinbjörn

Tuesday, November 23, 2010

Miðvikudagurinn 24.nóvember 2010 , klukkan 17.15

                                          Þarna eru Gulla, Erna Ingólfs og Oddný Árna á Vífillfellinu í haust.
Nú er komið að frábærri göngu á miðvikudegi, við erum ánægð yfir því hvað þessar göngur hafa farið vel á stað. Það er alltaf gaman að sjá ný andlit og því skorum við á ykkur að koma og vera með, færð er alltaf afstætt hugtak klæðum og skóum okkur eftir veðrinu og færðinni.
Erna Ingólfsdóttir og Vilborg Sigurðardóttir ætla að vera göngustjórar þennan miðvikudaginn og samanlögð reynsla þeirra í gönguferðum er ekki hægt að mæla.

Sjáumst hress og kát,
Jóhann Úlfarsson

Thursday, November 18, 2010

Miðvikudagsgangan, aðventan o.fl.


Við fórum 8 göngufélagar í gær, hálkan lék svolítið stórt hlutverk í göngunni. Farið var í kringum flugvöllinn en gengið var í gegnum báðar Skerjafjarðarbyggðirnar litla og stóra Skerjó og Gulla var með smáleiðsögn í  litla Skerjó, hún er alin upp stelpan í húsi þar sem heitir Garður. Þetta gekk fínt og gengnir voru 6.5 km og vorum við 1 klst 18 mín að því, allir komnir heim fyrir kl 19.00.
Komið hefur beiðni frá lögreglunni bæði fyrir hlaupa og eins við göngufólkið getum tekið það til okkar líka og hlýtur að umferðareglum og endurskinsmerkum eða merkingum á fatnaði. Læt ég fylgja slóð inn á frétta mbl.is um málið:  
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/11/17/logreglan_aminnir_hlaupara/

Við höfum fengið hann Hilmar Þ Björnsson arkitekt manninn hennar  Svanhildar Sigurðardóttir flugdeild, til að vera með leiðsögn í jólagöngu okkar sem verður farin 15 desember n.k klukkan 19.00 niður í miðbæ (staðsetning auglýst síðar). Hann Hilmar er arkitekt og mikill áhugamaður um byggð og hús, hann ætlar að gefa okkur aðeins innsýn inn í þann  heim, okkur hlakkar til gönguferðarinar og ætlum að fara á kaffihús á eftir og gæða okkur á súkklaði  o.fl.
og viljum við biðja ykkur að taka þetta kvöld frá í þessa frábæru ferð.

Tuesday, November 16, 2010

Miðvikudagurinn 17.nóvember n.k kl 17.15

Guðrún Birgisdóttir eða Gulla eins og flest þekkja hana  ætlar að stjórna þessari miðvikudagsgöngu og við erum á hennar gönguleið þennan miðvikudaginn. Ég hvet sem flesta að koma og við förum á stað klukkan 17.15 frá aðalskrifstofunni á Reykjavíkurflugvelli.
Það hefur verið góð mæting á þessar göngur enda mjög skemmtilegar. Þetta er frábær hópur sem hefur mætt og ég veit líka það eru fleiri góðir sem langar að vera með, drífið ykkur bara. Klæðum okkur eftir veðri, ég hvet þá sem eiga göngustafi að koma og prófa þá. Þarna er fólk sem hefur farið á göngustafanámskeið sem getur sýnt undirstöðuna.
Það var frekar fámennt á laugardaginn hópurinn sem fór á Úlfarsfellið, þetta fell er frábær byrjun ef maður vill prófa að fara á fjöll. Við eigum eftir að fara þangað aftur,  ekki verða fleiri fjallgöngur fyrir áramót. Framkvæmdaáætlun verður svo birt um mánaðmótinn og þá verður til gönguáætlun fyrir allt næsta ár,  vil ég hvetja fólk til að setja áætlaða göngudaga inn í sína dagbók og vera með.
Eins vil ég biðja fólk að taka frá 15.desember, til að ganga saman um miðbæinn og það verður  leiðsögn, við erum að finn þann aðila og getum ekki beint birt dagsetninguna staðfesta fyrr en samningar nást við þann aðila og verður það  auglýst upp þá.

með göngukveðjum,
Jóhann Úlfarsson

Wednesday, November 10, 2010

Hellisheiðagangan verður Úlfarsfellsganga, hittumst við Skógræktina.

Við munum breyta göngunni sem sett hefur verið á n.k laugardag 13 nóv, förum  á Úlfarsfell.   Allir mæta við skógræktarskúranna við Vesturlandsveginn klukkan 10. Lýsing að svæðinu er svona: Mikil skógrækt við rætur Úlfarsfellsins,  keyrt er út úr öðru hringtorgi frá Reykjavík að telja strax til hægri.( alltaf selt jólatré þarna í gengum tíðina)
Hvet ég sem flesta að vera með og vera klæddir eftir veðrinu og hafa eitthvað til að hressa sál og líkama með heitu og/eða sætu. Munið húfurnar og vettlinganna líka.
Smáinnskot:
Það voru 15 hressir Gönguklúbbsmeðlimir sem gengu frá aðalskrifstofunni klukkan 17.15, Sigríður Helgadóttir í fjarsölunni stýrði göngunni og farið var inn í Kópavoginn og tekin krókur þar, síðan var gengið inn í  Fossvoginn stefnan tekin um síðir á Perluna og síðan yfir Öskjuhlíðina og niður að aðalskrifstofunni. Þessi ferð tók 1.klst 13 mín og gengin var 7.2 km. Glæsilegt Sigga og takk fyrir mig.
Við óskum eftir göngustjóra eða stjórum fyrir næsta miðvikudag, þetta er allt að festast í sessi og hressleikinn í hópnum alltaf að verða meiri og meiri.
kv / Gönguhrólfurinn.

Monday, November 8, 2010

Miðvikudagurinn 10 nóvember. kl 17.15

Góðir gönguklúbbsmeðlimir nú n.k miðvikudag ætlar Sigga og Gulla í fjarsölunni að leiða okkur í göngunni. Hvað þær ætla að bjóða upp á verður að koma í ljós. Það er spenningurinn við að ganga og eins líka hverjir mæta.  Spurninginn er  ætlar þú að vera hluti af hópnum á miðvikudögum, það er ekkert veður það vont að ekki sé hægt að ganga munið það. Gönguhópurinn er aldrei sterkari en það sem félagarnir leggja til, þessi sterki andi sem myndaðist á stofnfundinn verður að halda, gerum sterkan klúbb sterki með því að mæta.

með gönguklúbbs kveðjum,
Jóhann Úlfarsson

Thursday, November 4, 2010

Flott miðvikudagsganga.

Sveinbjörn Egilsson valdi leiðina sem var farinn, við gengum upp í Menntaskólan við Hamrahlíð og Listabrautina og síðan stökkinn inn að Réttarholtsvegi og niður í Fossvogsdalinn til baka, það var gullfallegt veður fyrsti snjórinn ný fallin og birtan var æðisleg og nánast logn hitastigið rétt um 0 stig.
Þetta voru 8.2 km og göngutíminn var um 1.30 klst sem var hrein snilld , veðrið var svo flott að við hreinlega gleymdum okkur.
Búið er að útnefna göngustjóra miðvikudagsins næsta, það eru  Sigríður Helgadóttir og Guðrún Birgisdóttir úr fjarsöludeildinni, hlakka til þess.

kveðja
Jóhann Úlfars

Tuesday, November 2, 2010

Miðvikudagurinn 3. nóvember klukkan 17.15

Langaði að minna á miðvikudagsgönguna , 3 nóvember  klukkan 17 . 15 frá aðalskrifstofu. Ef fólki finnst að við eigum að seinka  um 15 mín til að ná hingað niður eftir er það ekkert mál, látið í ykkur heyra.
 Kíkið endilega hingað  inn reglulega og við munum á einhverjum tímapunkti þegar framkvæmdaáætlun er kominn út skipta alfarið yfir í að birta hér tilkynningar.
Venjið ykkur á að kíkja reglulega inn og takið þátt í að gera þessa síðu skemmtilega og lifandi, það geta allir skrifað eða bloggað látið Signý ritara vera tengilið.

gönguklúbbskveðjur
Jóhann Úlfarsson

Saturday, October 30, 2010

Gengum á Esjuna í stað Akrafjalls.

Við frestum aldrei göngu, veður á Akrafjalli var  of mikill vindur fyrir okkur þannig að Richard göngustjóri ákvað að fara á Esjuna í staðin. Það voru vaskir gönguklúbbsfélagar sem mætu hjá gömlu rafveitunni í Elliðaárdal klukkan stundvíslega 9.00 í morgun. Haldið var á Esjuna og veður var svolítið hvasst en lyngdi alltaf meir og meir eftir því sem ofar dróg. Úr þessu varð hinn skemmtilegasta gönguferð og allir voru ánægðir og glaðir.
Ég verð að minnast á að Richard göngustjóri fékk vin sinn með í för, þegar við fórum að tala saman kom í ljós að drengurinn var að ganga á 340 tindin á þessu ári, hann er að vinna verkefni fyrir Ljósið og safnar áheitum og það má kalla hann  á "heitan göngukappa". Hann sagði mér frá því að 11 desember líkur þessari áheita göngum þeirra með ferð á Esjuna og það á mynda ljósaröð upp og niður þann dag. Lofaði ég honum að kynna þetta á síðunni okkar og  að einhverjir knáir félagar skyldu taka þátt í þessu frábæra verkefni þeirra. Takið laugardaginn 11 desember frá og verið með við munum kynna þetta betur síðar.
En hugsið ykkur 340 tinda á einu ári,vá glæsilegt, mig minnir að drengurinn hafi heitað Steini.

Hlakka til næstu göngu sem verður n.k miðvikudag kl 17.15, þetta fer frábærlega vel af stað í gönguklúbbnum og við vonum að fleiri og fleiri láti sjá sig svo klúbburinn verði sterkur og flottur, já verðum langflottust.

kveðja
Jóhann Úlfarsson

Thursday, October 28, 2010

Frestum aldrei neinu, við tökum einhverri annarri áskorun!!!!

Við erum að horfa á veðurspánna og líst í augnablikinu ekki velá  í fjallgöngu á Akrafjallið. En göngunni frestum við ekki,  höfum margt í handraðanum. Skorum á alla að mæta og láta veður og vind ekki hafa áhrif á ákvörðun sína. Eins og ég segi svo ótal oft við mína göngufélaga það er ekkert veður vont heldur bara fólkið kann ekki að klæða sig, við munum ekki hætta lífi og limum félaga okkar.
Getum í stað fjallgöngu á laugardaginn farið í áskorunargöngu  að hætti Richard og Jóhanns, við erum alvanir að taka skjótar og skemmtilegar ákvarðannir.
Mæting er við gömlu Rafstöðina í Elliðaárdal klukkan 9.00 og söfnumst í bíla. Verum klædd eftir veðri og samt ekki ofklædd, hafið með ykkur bakpoka með aukafötum, stingið í hann nesti. Munið endilega eitthvað heitt og eitthvað sætt.

ps munum að líkum eiga Akrafjallið inni.

Smáfrétt frá miðvikudagsgöngunni, það fóru 14 manns, gengu 6.47 km og tíminn var 1.klst 08 mínútur frábært veður og skemmtilegt innlegg í hversdagsleikan. Hringur um flugvöllinn var farinn samkvæmt göngustjóra.

Með baráttukveðjum,
Richard Hansen
Jóhann Úlfarsson

Tuesday, October 26, 2010

Miðvikudagsgangan verður klukkan 17.15 frá aðalskrifstofu IG

Miðvikudaginn 27. október verður ganga frá aðalskrifstofunni, safnast verður saman framan við aðalinnganginn. Okkur hlakkar til að sjá ykkur, nú er tíminn til að hefja æfingar fyrir næsta sumar hvert sem markmiðið er, fjallganga, bæjarganga, fjölskylduganga sem og  skipulagaðar gönguferðir. Það er svo gaman að vera í góðu formi fyrir hvað sem er og göngur geta hjálpað okkur í því. Heilbrigð sál í hraustum líkama er markmið okkar allra, sláumst því í för með hressu og skemmtilegu fólki.

Sjáumst,

Jóhann Úlfarsson

Saturday, October 23, 2010

Gönguferðir alla miðvikudaga kl 17.15 frá aðalskrifstofu.

Vegna fjölda áskoranna hefur stjórn Gönguklúbbs IG ákveðið að hefja göngur hvern miðvikudag klukkan 17.15 frá aðalskrifstofunni.    Byrjað verður n.k miðvikudag 27  október . Prófum þetta fram að aðventu. 
   Við viljum  koma á framfæri við félaga í gönguklúbbsins að gefa sig fram og vera göngustjórar í þessum göngum sem og öðrum sem klúbburinn mun skipuleggja.
    Okkur sýnist framkvæmdaáætlun næsta árs ætla að verða mjög metnaðargjörn og áhugi er fyrir alls konar gönguafbrigðum, en til þess að metnaðurinn verði staðfestur verðum við að fá fólk sem tilbúið er að vera með í áætlunni, stjórnarmenn skipuleggja ekki allar gönguferðir klúbbsins það er bara ekki hægt.
Að lokum langar mig að minna ykkur á gönguferðina  á laugardaginn 30. okt á Akrafjallið og verður það auglýst þegar nær dregur.
göngukveðjur,
Jóhann Úlfarsson

Friday, October 15, 2010

Fyrsta bæjargangan

Fyrsta bæjargangan var farin sl miðvikudag 13. okt. Genginn var rösklega svokallaður flugvallahringur í góðum félagsskap þrettán gönguklúbbsfélaga. Gangan var ánægjuleg í alla staði, hressandi og skemmtileg. Hvetjum við alla til að njóta útiverunnar og skella ykkur í næstu göngu.

Monday, October 11, 2010

Bæjarganga miðvikudaginn 13. október nk.

Ágætu gönguklúbbsfélagar
Nú er komið að bæjargöngunni.
Næsta gönguferð gönguklúbbsins verður farin nk. miðvikudag 13. október. Gengið verður umhverfis Reykjavíkurflugvöll. Lagt verður af stað frá Aðalskrifstofu í Reykjavík stundvíslega kl. 17:15 og er gert ráð fyrir að gangan taki ca. 1,5 klst. en vegalengdin er um 6,5 KM. Upplagt er (fyrir þá sem eiga) að mæta með göngustafi.
Lýsing á gönguleið
Vonumst til að sjá sem flesta.
Kveðja,
Göngustjórar
Svava Björk og Ágúst
: Gangan hefst við Aðalskrifstofur, gengið verður á göngustíg við rætur Öskjuhlíðar í átt að Nauthólsvík austan við HR og veitingastaðinn Nauthól. Gengið er göngustíginn fyrir enda flugbrautar, fyrir dælustöðina í Skerjafirði og haldið áfram í vesturátt að Suðurgötu. Af Suðurgötu er beygt inn á Þorragötu síðan Njarðargötu uns komið er að Hringbraut. Af Hringbraut er síðan gengið á stíg meðfram hinum nýja Nauthólsveg í átt að Aðalskrifstofum félagsins.

Monday, October 4, 2010

Gangan á Keili

Það voru 12 manns sem mættu í Keilisgönguna á laugardaginn (2.okt.). Veðrið var frábært til göngu um 13 stiga hiti og nánast logn. Útsýni af tindinum var meiriháttar og voru allir ánægðir með hvað þeir voru duglegir og fóru létt með þetta. Gangan tók í það heila um 3 klst. Vonumst eftir að sjá fleiri þátttakendur í næstu göngum.  Það er alveg  meiriháttar gaman og upplífgandi að stunda fjallgöngur með góðum og skemmtilegum félögum.

Kveðja,

Sveinbjörn

Thursday, September 30, 2010

Gönguferð á Keili - Laugardaginn 2. október kl. 11:00

Næsta gönguferð verður farin n.k. laugardag 2. október. Verður þá gengið á fjallið Keili sem er 379 metra hátt. Við ætlum að hefja gönguna stundvíslega kl. 11:00. Gengin verður gönguslóði sem liggur frá Höskuldarvöllum yfir hraunbreiðuna að Keili. Útsýni af tindinum er yfir allan Reykjanesskaga og Faxaflóann. Gönguleiðin er í grófu hrauni, gengið er eftir einstigi upp fjallið, efst í fjallinu er harðari steinn undir fæti og því gott að vera í góðum gönguskóm.
Til að komast að Keili er ekið af Reykjanesbraut skammt vestan við Kúagerði en þar eru mislæg gatnamót Vatnsleysustrandarvegar. Greiðfært er öllum bílum um Afstapahraun að Höskuldarvöllum, en nákvæmlega þar við enda Oddafellsins,ætlum við að hittast kl. 11:00
Gera má ráð fyrir að þessi ganga taki 2-3 klst
Heilræði
* Drykkjarföng.
* Léttan bakpoka.
* Viðeigandi hlífðarfatnað eftir veðri (t.d. aukapeysu, sokka, vettlinga, húfu).
* Létt nesti (t.d. samloku, ávexti, kex).
* Góðir gönguskór.
* Göngustafi.
* Góða skapið.
Kveðja,
Göngustjórar
Sveinbjörn og Signý

Friday, September 24, 2010

Vígslugangan gekk frábærlega, gott var á toppnum.

Góðan daginn gönguklúbbsfélagar.
Við fórum 19 manns vígslugönguna á Vífilsfellið í gærkvöldi lögðum upp klukkan 18.00 stundvíslega og gangan upp tók 1 klst. upp. Ferðin upp gekk vel og dreifðust göngufélagar aðeins en aldrei svo mikið að við áðum tvisvar sinnum á leiðinni upp og söfnuðumst saman.
Þegar á toppinn var komið, eftir svolítið klifur í restina  var veður frábært við sáum í allar áttir og sumir dáðust að útsýninu til Reykjavíkur. Ég hef oft sagt um þetta ágæta fell að það lítur út eins og ræðupúlt fyrir tröllinn með Sandskeiðið fyrir neðan fyrir áheyrendur. Veður eins og áður sagði gott logn og hiti var 7 stig svolítið skýjað. Flugmann Loftsson var þarna og lét mynda sig í bak og fyrir, sá kappi reyndi að halda á tunglinu og afrekið má sjá á mywork síðunni. Ég er ekki orðin svo góður að setja inn myndir hérna en það lærist þessi síða á bara eftir að verða betri það er víst. Þegar klukkuna vantaði tuttugu og fimm mínútur í átta fórum við að fikra okkur niður og ferðin niður gekk fínt og dreifðust fólk en frekar niður eftir en við hópuðumst saman og drukkum vatn sem einhver góður göngufélagi splæsti á liðið, lang best eftir gönguferðir. Það tók okkur 40-45 mín að komast niður og myrkrið var að taka við af rökkrinu þegar allir voru komnir niður á bílastæði. Eftir þessa göngu verður búinn til rammi með mynd af þeim sem fóru á toppinn og geymt á góðum stað til að verðveita hverjir það voru sem gengu fyrstu gönguna, svo verður þurrkað rykið af þeirri mynd á 100 ára afmælinu við megum ekki geyma að varðveita söguna strax í byrjun því markmið okkar eru háleit. Til dæmis bauð Sveinbjörn gjaldkeri  Fjölnir hlaupaklúbbsfélaga að taka þátt í Everest ferðinni sem verður farinn eftir fimm ár, markmiðið  er gott. Mig hlakkar til að taka þátt í þar næstu göngu því ég ætla að verða í burtu 2 október þegar næsta ferð verður farinn á Keili og Sveinbjörn gjaldkeri og Signý ritari eru göngustjórar þá, ég skora á ykkur að hópast í þá göngu hún er á laugardegi og verður auglýst síðar hér á síðunni.
Takk fyrir mig gönguklúbbsmeðlimir
Jóhann Úlfarsson

Wednesday, September 22, 2010

Framkvæmdaáætlun 2010 - 2011 og nokkrir aðrir punktar.

   Vinna er hafin að framkvæmdaáætlun og nokkrar hugmyndir sem komu fram á stofnfundinn verða þar inni.. Aðeins hafa  klúbbmeðlimir verið að reifa hugmyndir um léttari gönguferðir, ekki bara á fjöll. Það er ljóst þegar klúbbur sem telur orðið 93 meðlimi verður breidd þeirra ferða sem farið verður í,  að vera mikið.
   Stjórn hefur skipt með sér verkum og er hún svona. Jóhann Úlfarsson er formaður, Sveinbjörn V. Egilsson er gjaldkeri, Signý Einarsdóttir er ritari og meðstjórnendur eru Ágúst Sigurjónsson, Svava Björk Benediktsdóttir, Richard Hansen og Vilborg Sigurðardóttir.
    Það er líka ljóst að við verðum að fá göngustjóra sem taka að sér stjórn á göngunum sem verður boðið verður upp á og geta göngustjórnarnir ráðið hvert skal haldið.  Göngudagarnir verða  hins vegar í framkvæmdaáætluninni.   Það var sagt  á stofnfundinum um daginn að allir meðlimir verða vera tilbúnir til að vinna fyrir gönguklúbbin með einhverju móti þannig verður þetta miklu skemmtilegra, auglýsum við eftir fólki sem er tilbúið að verða göngustjórar helst tveir með hverri göngu.
Ýtið bara á  comment"  og segið skoðun ykkar á því sem öðru sem ykkur finnst að ætti að vera innan framkvæmdaáætlunar.
  Árgjaldsbeiðnin verður send til launadeildar inna fárra daga  þannig að klúbbsmeðlimir gætu átt von að sjá hana á launaseðlum sínum fljótlega.
Viljum við hvetja Gönguklúbbsmeðlimi ganga sem allra mest og óskum þess að ykkur gangi sem best í heilsueflingu.

Kveðja,
Jóhann Úlfarsson.

Tuesday, September 21, 2010

Fyrsta ganga Gönguklúbbs Icelandair Group verður fimmtudaginn 23 sept n.k kl 1800

Fyrsta gangan er fyrirhuguð næstkomandi fimmtudag 23 september kl 18.00 og var Vífilsfell fyrir valinu.  Safnast verður saman í sandgryfjunum neðan við fellið. Keyrt til hægri rétt eftir að Sandskeiðinu sleppir. Verður það nokkurs konar vígsluganga fyrir nýstofnaðan gönguklúbb.  Við hvetjum alla þá sem eru skráðir í gönguklúbbinn að mæta og eins líka þá sem vilja prófa og langar en eru ekki búnir að skrá sig.  Komið rétt klætt, með göngustafi.  Við ætlum að reyna að vera kominn niður áður en rökkvar. Ef fólk á gönguljós mega þau vera í pokanum en eru að við höldum alveg þarflaus.

Stjórnin.