Thursday, September 30, 2010

Gönguferð á Keili - Laugardaginn 2. október kl. 11:00

Næsta gönguferð verður farin n.k. laugardag 2. október. Verður þá gengið á fjallið Keili sem er 379 metra hátt. Við ætlum að hefja gönguna stundvíslega kl. 11:00. Gengin verður gönguslóði sem liggur frá Höskuldarvöllum yfir hraunbreiðuna að Keili. Útsýni af tindinum er yfir allan Reykjanesskaga og Faxaflóann. Gönguleiðin er í grófu hrauni, gengið er eftir einstigi upp fjallið, efst í fjallinu er harðari steinn undir fæti og því gott að vera í góðum gönguskóm.
Til að komast að Keili er ekið af Reykjanesbraut skammt vestan við Kúagerði en þar eru mislæg gatnamót Vatnsleysustrandarvegar. Greiðfært er öllum bílum um Afstapahraun að Höskuldarvöllum, en nákvæmlega þar við enda Oddafellsins,ætlum við að hittast kl. 11:00
Gera má ráð fyrir að þessi ganga taki 2-3 klst
Heilræði
* Drykkjarföng.
* Léttan bakpoka.
* Viðeigandi hlífðarfatnað eftir veðri (t.d. aukapeysu, sokka, vettlinga, húfu).
* Létt nesti (t.d. samloku, ávexti, kex).
* Góðir gönguskór.
* Göngustafi.
* Góða skapið.
Kveðja,
Göngustjórar
Sveinbjörn og Signý

Friday, September 24, 2010

Vígslugangan gekk frábærlega, gott var á toppnum.

Góðan daginn gönguklúbbsfélagar.
Við fórum 19 manns vígslugönguna á Vífilsfellið í gærkvöldi lögðum upp klukkan 18.00 stundvíslega og gangan upp tók 1 klst. upp. Ferðin upp gekk vel og dreifðust göngufélagar aðeins en aldrei svo mikið að við áðum tvisvar sinnum á leiðinni upp og söfnuðumst saman.
Þegar á toppinn var komið, eftir svolítið klifur í restina  var veður frábært við sáum í allar áttir og sumir dáðust að útsýninu til Reykjavíkur. Ég hef oft sagt um þetta ágæta fell að það lítur út eins og ræðupúlt fyrir tröllinn með Sandskeiðið fyrir neðan fyrir áheyrendur. Veður eins og áður sagði gott logn og hiti var 7 stig svolítið skýjað. Flugmann Loftsson var þarna og lét mynda sig í bak og fyrir, sá kappi reyndi að halda á tunglinu og afrekið má sjá á mywork síðunni. Ég er ekki orðin svo góður að setja inn myndir hérna en það lærist þessi síða á bara eftir að verða betri það er víst. Þegar klukkuna vantaði tuttugu og fimm mínútur í átta fórum við að fikra okkur niður og ferðin niður gekk fínt og dreifðust fólk en frekar niður eftir en við hópuðumst saman og drukkum vatn sem einhver góður göngufélagi splæsti á liðið, lang best eftir gönguferðir. Það tók okkur 40-45 mín að komast niður og myrkrið var að taka við af rökkrinu þegar allir voru komnir niður á bílastæði. Eftir þessa göngu verður búinn til rammi með mynd af þeim sem fóru á toppinn og geymt á góðum stað til að verðveita hverjir það voru sem gengu fyrstu gönguna, svo verður þurrkað rykið af þeirri mynd á 100 ára afmælinu við megum ekki geyma að varðveita söguna strax í byrjun því markmið okkar eru háleit. Til dæmis bauð Sveinbjörn gjaldkeri  Fjölnir hlaupaklúbbsfélaga að taka þátt í Everest ferðinni sem verður farinn eftir fimm ár, markmiðið  er gott. Mig hlakkar til að taka þátt í þar næstu göngu því ég ætla að verða í burtu 2 október þegar næsta ferð verður farinn á Keili og Sveinbjörn gjaldkeri og Signý ritari eru göngustjórar þá, ég skora á ykkur að hópast í þá göngu hún er á laugardegi og verður auglýst síðar hér á síðunni.
Takk fyrir mig gönguklúbbsmeðlimir
Jóhann Úlfarsson

Wednesday, September 22, 2010

Framkvæmdaáætlun 2010 - 2011 og nokkrir aðrir punktar.

   Vinna er hafin að framkvæmdaáætlun og nokkrar hugmyndir sem komu fram á stofnfundinn verða þar inni.. Aðeins hafa  klúbbmeðlimir verið að reifa hugmyndir um léttari gönguferðir, ekki bara á fjöll. Það er ljóst þegar klúbbur sem telur orðið 93 meðlimi verður breidd þeirra ferða sem farið verður í,  að vera mikið.
   Stjórn hefur skipt með sér verkum og er hún svona. Jóhann Úlfarsson er formaður, Sveinbjörn V. Egilsson er gjaldkeri, Signý Einarsdóttir er ritari og meðstjórnendur eru Ágúst Sigurjónsson, Svava Björk Benediktsdóttir, Richard Hansen og Vilborg Sigurðardóttir.
    Það er líka ljóst að við verðum að fá göngustjóra sem taka að sér stjórn á göngunum sem verður boðið verður upp á og geta göngustjórnarnir ráðið hvert skal haldið.  Göngudagarnir verða  hins vegar í framkvæmdaáætluninni.   Það var sagt  á stofnfundinum um daginn að allir meðlimir verða vera tilbúnir til að vinna fyrir gönguklúbbin með einhverju móti þannig verður þetta miklu skemmtilegra, auglýsum við eftir fólki sem er tilbúið að verða göngustjórar helst tveir með hverri göngu.
Ýtið bara á  comment"  og segið skoðun ykkar á því sem öðru sem ykkur finnst að ætti að vera innan framkvæmdaáætlunar.
  Árgjaldsbeiðnin verður send til launadeildar inna fárra daga  þannig að klúbbsmeðlimir gætu átt von að sjá hana á launaseðlum sínum fljótlega.
Viljum við hvetja Gönguklúbbsmeðlimi ganga sem allra mest og óskum þess að ykkur gangi sem best í heilsueflingu.

Kveðja,
Jóhann Úlfarsson.

Tuesday, September 21, 2010

Fyrsta ganga Gönguklúbbs Icelandair Group verður fimmtudaginn 23 sept n.k kl 1800

Fyrsta gangan er fyrirhuguð næstkomandi fimmtudag 23 september kl 18.00 og var Vífilsfell fyrir valinu.  Safnast verður saman í sandgryfjunum neðan við fellið. Keyrt til hægri rétt eftir að Sandskeiðinu sleppir. Verður það nokkurs konar vígsluganga fyrir nýstofnaðan gönguklúbb.  Við hvetjum alla þá sem eru skráðir í gönguklúbbinn að mæta og eins líka þá sem vilja prófa og langar en eru ekki búnir að skrá sig.  Komið rétt klætt, með göngustafi.  Við ætlum að reyna að vera kominn niður áður en rökkvar. Ef fólk á gönguljós mega þau vera í pokanum en eru að við höldum alveg þarflaus.

Stjórnin.