Wednesday, May 18, 2011

Létt göngu- og fróðleiksferð um Nesjavallasvæðið, laugardaginn 28. maí 2011.



Ágætu gönguklúbbsfélagar

Gönguklúbburinn lætur ekki deigan síga og  höfum við nú  skipulagt flotta gönguferð sem lofar góðu áður en hún er farin.   Ákveðið hefur verið að ganga um Nesjavallasvæðið í fylgd frábærra leiðsögumanna sem ætla að segja okkur sögu svæðisins og gefa okkur líka svolitla innsýn inn í hverslags orka heita vatnið okkur er og hvaðan það kemur.  Leiðsögumenn okkar verða heiðurshjónin  Dr  Grétar Ívarsson jarðfræðingur hjá  Orkuveitunni  og  Anna Dís Sveinbjörnsdóttir driffjöður og flugfreyja, Grétar hefur starfað mikið á þessu svæði og þekkir það út og inn eins og sagt er.

Við ætlum að koma saman klukkan 11:00  á Olísstöðinni við Rauðavatn og sameinast þar í bíla og keyra eins og leið liggur Nesjavallarveg til áfangastaðar.  Þegar komið er á svæðið verður bifreiðum lagt við skoðunarpall ofan við virkjunarsvæði Nesjavalla. Fjallað verður um jarðfræði Hengilsins, gossögu og hvernig eldvirknin tengist núverandi vinnslu á svæðinu.  Gengið verður um vinnslusvæði Nesjavallavirkjunar og ljósi varpað á mismunandi jarðhitafyrirbrigði. Einnig verða skoðuð svokölluð virk gufuaugu og ný virkni sem myndast hefur á síðustu þremur árum. Raforkuverið verður skoðað en hámarksraforkuframleiðsla Nesjavallavirkjunar er 120 MW, svo og verður varmaorkuverið heimsótt en þar er hámarksvarmaorkuframleiðslugetan 275 MW. Að endingu verður gestamóttaka Nesjavallavirkjunar skoðuð. Þar kennir ýmissa grasa, m.a. finnast þar salerni.

Gangan er stutt og létt, kanski 3 - 4 km og allt niður í móti. Gerum ráð fyrir að vera komin til baka að Olísstöðinni við Rauðavatn um kl. 15:30.

Vonumst til að sjá sem flesta.  Allir velkomnir. 


GÖIG-kveðja,

Jóhann og Sveinbjörn.

Monday, May 16, 2011

Maí ganga GÖIG

Við erum að undirbúa göngu maí-mánaðar og munum birta hérna von bráðar betri leiðarlýsingu. Við höfum fengið til liðs við okkur frábæra leiðsögumenn og ætlum að stefna á Hellisheiðar-svæðið. Verðum í sambandi síðar ágætu gönguklúbbsfélagar.  Gangan er fyrirhuguð 28 maí n.k takið hann frá, þetta er ganga sem enginn vill missa af.

jóhann úlfars

Friday, May 6, 2011

Engin snjókoma í Grindavík..

Það var snjókoma og logn í Reykjavík en létt rigning og logn á Þorbirninum. Við vorum sjö sem mættum og höfðum gaman af. Þetta litla fell kemur á óvart þegar á toppinn er komið eins og sést á myndunum.
Takk fyrir mig
Signý